Hafna auð­linda­gjaldi

Hægri flokkur Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, ályktaði á landsfundi sínum um helgina að ekki skuli skattleggja sérstaklega fiskveiðar og fiskeldi þar í landi. Fram kemur í ályktuninni að það sé mikilvægt að Hægri flokkurinn styðji við sjálfbært velferðarsamfélag, þar sem áhersla er lögð á efnahagslega hvata. Til að hægt sé að skapa verðmæti um allt land verði fyrirtækin að búa við traustan og fyrirsjáanlegan ramma.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir að töluverð tíðindi felist í þessu og full ástæða sé fyrir íslenska stjórnmálamenn að skoða þetta vel: „Það er merkilegt að frétta það að á sama tíma og umræðan á Íslandi snýst meira og minna um hvernig skattleggja megi sjávarútveginn og nú síðast fiskeldi, þá skuli Norðmenn hafa áttað sig á því að réttara sé að slá enn frekari stoðum undir þessa atvinnuvegi, en ekki leggja á þá sérstakt auðlindagjald. Þetta verður enn athyglisverðara þegar haft er í huga að Norðmenn eru okkar helstu keppinautar þegar kemur að sölu á fiski á alþjóðlegum markaði.“

Einn af samstarfsflokkum Hægri flokksins í ríkisstjórninni, Frjálslyndi flokkurinn, (n.Venstre), samþykkti sambærilega ályktun á sínum landsfundi á dögunum. Þar kemur fram að það sé betra fyrir þjóðina, sjávarþorpin og atvinnuveginn, þegar fyrirtækin geta fjárfest. „Það er mikilvægt að stjórnmálamenn geri sér grein fyrir því að sterk sjávarútvegsfyrirtæki koma öllum vel, sérstaklega á þeim stöðum þar sem sjávarútvegur er hryggjarstykkið í atvinnulífinu. Svo ekki sé talað um þá staði þar sem fiskeldi hefur skipt sköpum. Það væri óskandi að sá skilningur væri ríkari á Íslandi, að sterkir atvinnuvegir eru forsenda öflugrar byggðastefnu“, segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px