Hækka í 2,20?

Þegar maður leggur stund á þrístökk er hefðbundið, eftir atrennuna, að taka fyrst fyrsta stökkið, síðan annað stökkið og að lokum svífur maður til jarðar í því þriðja. Það er eiginlega ómögulegt að taka fyrst annað stökkið, hvað þá það þriðja. Það er eins í hástökkinu, byrja smátt og bæta í. Það verður sem sagt að vera eitthvert eðlilegt og rökrétt samhengi í hlutunum. Á miðri aðventunni í desember kynntu stjórnvöld til sögunnar ný metnaðarfull markmið í loftslagsmálum. Samdráttur í losun á gróðurhúsalofttegundum á nú að verða 55% fyrir árið 2030, miðað við árið 1990, en var áður 40%. Það á að sjálfsögðu að hafa metnað til að gera vel í þessum málum, en merkilegt má þó teljast að svo virðist sem fátt bendi til þess að gamla markmiðið náist. Þrátt fyrir það er aukið við. Ef við höldum okkur við hástökkið, þá væri það eins og að ákveða að reyna við 2,20, því það mistókst að komast yfir 1,90.

Á kynningarfundi um „Ný metnaðarfull markmið í loftslagsmálum“ kom fram að Ísland hefði markað sér stöðu sem ríki sem stendur að mörgu leyti framarlega í loftslagsmálum. Þar voru kynnt þrjú ný markmið. Fyrir utan hækkunina fyrrnefndu í 55% er talað um að efla aðgerðir til að ná markmiði Íslands um kolefnishlutleysi árið 2040.

Það er augljóst að loftslagsvandinn er vandi - og það stór. Orð á blaði gefa fyrirheit, en ein og sér hafa þau þó enga merkingu ef þeim er ekki fylgt eftir með athöfnum. Þá nálgumst við meginefni þessarar greinar. Í fyrrasumar undirrituðu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og stjórnvöld samstarfsyfirlýsingu um hvata til að draga úr kolefnisspori í íslenskum sjávarútvegi. Fram kemur í henni að markmiðum í loftslagsmálum verði ekki náð nema með samstarfi allra, þar með talið atvinnulífsins. Ýmsar aðgerðir eru taldar upp til að íslenskur sjávarútvegur verði kolefnishlutlaus, því: „Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og sjávarútvegsins að skapa umgjörð svo greinin geti haldið áfram að leggja sitt af mörkum til þeirra nauðsynlegu skrefa sem stíga þarf í loftslagsmálum, bæði til skemmri og lengri tíma.“ Þróunin í sjávarútvegi hefur sannanlega verið jákvæð því olíunotkun hefur dregist stórum saman á undanförnum áratugum. Takist að draga þar enn meira saman er eftir miklu að slægjast, ekki eingöngu fyrir sjávarútveginn heldur einnig umhverfið og markmið stjórnvalda. Höfum í huga að sjávarútvegur er ábyrgur fyrir um 18% af heildarlosun Íslands.


Myndatexti: Frá undirritun samstarfsyfirlýsingarinnar fyrir utan Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu í sumar. Forsvarsmenn SFS og sex ráðherrar ríkisstjórnarinnar.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki mörkuðu sér stefnu í samfélagsábyrgð í lok síðasta árs sem grundvallast á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Þar er meðal annars fjallað um leiðir til að minnka kolefnissporið með því að mæla það, draga enn frekar úr losun og jafna og binda kolefni. Nú sem fyrr vill íslenskur sjávarútvegur því vera hluti af lausninni í loftslagsmálum, enda er staða loftslagsmála ógn við lífríki á norðurslóðum og um allan heim.

Nokkur fjöldi fyrirtækja í sjávarútvegi er þegar tilbúinn að hefja kolefnisjöfnun af fullri alvöru, en hugmyndin um kolefnisjöfnun sjávarútvegsins var í raun það sem kom áðurgreindri samvinnu stjórnvalda og sjávarútvegsins á koppinn. Kolefnisjöfnun getur meðal annars gerst með skógrækt og endurheimt votlendis eða uppgræðslu á örfoka landi. Til að hægt sé að hefjast handa þurfa hins vegar að liggja til grundvallar reglur og viðmið stjórnvalda, þannig að tryggt sé að kerfið í kringum kolefnisjöfnun færi sannanlega til bókar þá jöfnun sem fyrirtæki ráðast í. Þá er ekki síður mikilvægt að skattheimta sem lögð er á útblástur á gróðurhúsalofttegundum verði nýtt í þágu þeirra markmiða sem stjórnvöld hafa sett í loftslagsmálum. Á vettvangi sjávarútvegs hefur ítrekað verið lagt til að fyrirtækjunum verði heimilt að nota hluta af þeim kolefnisgjöldum sem þau greiða af jarðefnaeldsneyti til að kolefnisjafna starfsemina. Með því móti myndu allir vinna, ekki síst umhverfið. Lítið hefur því miður þokast í þessu mikilvæga verkefni stjórnvalda.

Stjórnvöld hafa að sjálfsögðu haft í nógu að snúast undanfarin misseri vegna Covid-19, en tímans hjól stöðvast ekki. Árið 2030 er einu ári nær í tíma en í fyrra. Því er rétt að spyrja, hvað ætla stjórnvöld að gera; hækka rána í 2,20 eða einhenda sér í verkefnið með atvinnulífinu? Atvinnulífið bíður.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px