Fyr­ir­tæk­ið Þor­björn í Grinda­vík val­ið nýsköp­un­ar­fyr­ir­tæki árs­ins

Creditinfo veitti í fyrsta sinn virðurkenningu fyrir nýsköpun í rótgrónu fyrirtæki á hátíðlegri athöfn vegna framúrskarandi fyrirtækja sem haldinn var í gær. Í tilkynningu frá Creditinfo segir að markmiðið sé að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar hjá öllum fyrirtækjum ekki bara sprotafyrirtækjum. Nýsköpun stuðli að framþróun fyrirtækja og auki samkeppnishæfni þeirra. Sérstök dómnefnd skipuð fulltrúum allra aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins (SI, SVÞ, SFF, SFS, Samorku og SAF) valdi Þorbjörn hf. í Grindavík. Ennfremur voru tilnefnd eftirfarandi fyrirtæki, Hampiðjan, Icelandair Group, Bláa lónið og Reiknistofa bankanna.

Umsögn dómefndar um Þorbjörn hf.: 

„Fyrirtækið byggir meginstarfsemi sína á aldagamalli þekkingu íslensks sjávarútvegs en hefur einnig verið leiðandi í nýsköpun, bæði í eigin fyrirtæki og með þátttöku í stofnun nýsköpunarfyrirtækja. Þorbjörn hf. hefur fylgt þeirri hugmyndafræði að finna aðferðir til að fullnýta sjávarfang í sinni framleiðslu með sjálfbærni að leiðarljósi. Félagið var brautryðjandi í pækilsöltun á sjó á sínum tíma og hefur tekið þátt í þróunarverkefnum við að betrumbæta flokkunarkerfi fyrir saltfiskflök. Þessi áhersla þeirra á sjálfbærni hefur leitt af sér verðmætasköpun í dótturfélögunum Haustaki og Codland. Bæði félögin nýta afurðir og skapa nýjar vörur úr hráefni sem áður var hent. Codland hefur meðal annars þróað aðferðir til að vinna Collagen úr fiskroði og framleiðir heilsudrykkinn Alda úr því. Þorbjörn hf. hefur einnig unnið að mennta- og fræðslumálum m.a. með samstarfi við Háskólann í Reykjavík og með því að bjóða unglingum í Grindavík upp á að sækja vinnuskóla til að efla áhuga ungs fólks á sjávarútvegi“.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi óska starfsfólki og stjórnendum í Þorbirni í Grindavík hjartanlega til hamingju.

Í tíu efstu sætum á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki 2016 eru Icelandair Group, Samherji, Icelandair, Marel, Reitir fasteignafélag, Össur, HB Grandi, Síldarvinnslan, Norðurál og Eik fasteignafélag.

Frekari upplýsingar um nýsköpun á vegum Þorbjarnar hf. má lesa hér að neðan. 

Virðing fyrir aldagamallli þekkingu og nýjum hugmyndum

Þorbjörn í Grindavík er sjávarútvegsfyrirtæki sem byggir megin starfsemi sína á aldagamalli þekkingu íslensks sjávarútvegs en einnig verið leiðandi í þróun og nýsköpun. Eftirfarandi dæmi ættu þó að bera þess glöggt merki að innan fyrirtækisins hefur verðmætasköpun og nýjungagirni verið í hávegum höfð. Þá hefur fyrirtækið stundað öflugt starf við að miðla þekkingu áfram meðal ungs fólks og haft umhverfissjónarmið og nýtingu að leiðarljósi í starfi sínu.

Af mörgu er að taka þegar litið er til nýsköpunarstarfs innan Þorbjarnar nokkur dæmi eru talin upp hér að neðan. Auk þess má benda á að tilkynnt var um nýtt stórt verkefni sem fyrirtækið tekur þátt í fyrir um það bil viku en það er bygging og rekstur verksmiðju eða heilsuvöruhúss sem nýtir hráefni frá sjávarútvegi sem annars nýtist illa eða ekki hérlendis. Heilsuvöruhúsið er í eigu HB Granda, Samherja og fyrirtækjanna Vísis og Þorbjarnar í Grindavík sem eiga Codland. Áætlað er að Heilsuvöruhúsið taki til starfa í byrjun árs 2018, en fyrsta skóflustungan verði tekin á vormánuðum.

Í fyrstu er reiknað með að aðalframleiðsluvara Heilsuvöruhúss verði kollagen-prótein unnið úr fiskroði. Afurðin verður meðal annars notuð í heilsufæði, fæðubótarefni, snyrtivörur og lyf. Nýtt verður orka frá Reykjanesvirkjun enda verður verksmiðjan sett upp í næsta nágrenni við virkjunina, ef áætlanir ganga eftir.

Gosdrykkur úr þorskroði til umfjöllunar í alþjóðlegu lífstílstímariti

Codland byrjaði að selja heilsudrykkinn Alda Iceland sem er blandaður með kollagen próteini árið 2016. Drykkurinn hefur vakið mikla athygli og meðal annars verið um hann fjallað í Wallpaper, einhverju þekktasta lífstílstímariti heims.

Auk þess hefur vefritið The Dieline fjallað lofsamlega um vöruna en það sérhæfir sig í umfjöllun á hönnun umbúða og er mest skoðað vefsíða heims af þeirri tegund.

Unglingar á Suðunesjum fræddir um nýsköpun og sjávarútveg í vinnuskólanum

Frá árinu 2014 hafa sjávarútvegsfyrirtækin Þorbjörn og Vísir boðið unglingum í Grindavík upp á að sækja vinnuskóla á sumrin. Skólinn sem nefnist Vinnuskóli Codland og hefur það að markmiði að efla áhuga ungs fólks á sjávarútvegi og sýna þátttakendum nýjan sjávarútveg og þau víðfeðmu áhrif sem hann hefur á íslenskt samfélag. Nemendur fá fræðslu um íslenskan sjávarútveg, fara í vettvangsferðir í fiskvinnslur og skip, fá starfskynningu, kynnast starfsemi frumkvöðla og vinna verkefni í nýsköpun.

Nýjar og grænar leiðir með Háskólanum í Reykjavík

Árið 2016 studdi Þorbjörn hönnuði og orkusérfræðinga framtíðarinnar með því að veita nemendum í Háskólanum í Reykjavík innsýn í fyrirtækið sitt svo hægt væri að finna grænni lausnir í orkumálum.

Verkefnið var unnið í gegnum svo kallað Hnakkaþon, en það er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarúrvegi. Í því er nemendum boðið að að taka þátt í samkeppni um lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi. Sigurvegarar árið 2016 voru fimm nemendur í vél- og orkutækni, viðskiptafræði og lögfræði, Guðjón Smári Guðmundsson, Ingi Svavarsson, Hjálmar Óskarsson, Margrét Lilja Hjaltadóttir og Hrönn Vilhjálmsdóttir. Verkefni þeirra fólst í að setja fram hugmyndir um hvernig mætti gera Þorbjörn hf að grænna fyrirtæki og þau lögðu til grundvallar Parísarráðstefnuna um loftslagsmál, þar sem teknar voru ákvarðanir um skref til lækkunar á losun gróðurhúsalofttegunda.

Í viðtali við mbl.is sagði Ingi Svavarsson, nemandi í véla- og orkutæknifræði  það hafa verið mikla áskorun að gera fyrirtækið umhverfisvænna þar sem það sé nú þegar að gera vel í þeim efnum.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px