Fisk­eldi í sjó — spurt og svar­að

Hvers vegna er fiskeldi mikilvægt?
Lengi hefur verið rætt um að skjóta þurfi fleiri stoðum undir útflutning Íslendinga. Þótt þessum stoðum hafi sannanlega fjölgað frá því villtur fiskur var því sem næst eina útflutningsafurðin, þá þarf enn að bæta við. Fleiri öflugri útflutningsgreinar eru nauðsynlegar svo viðhalda megi heilbrigðum hagvexti og hagsæld hér á landi, auk þess sem fjölbreytni í útflutningshagsmunum dregur úr sveiflum og minnka áhættu.

Samkvæmt skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey árið 2012, Charting Iceland‘s Growth Path, var talið að auka þyrfti útflutningsverðmæti um 1.000 milljarða króna á næstu 20 árum til þess að viðhalda hagvexti. Það þýðir 50 milljarða króna aukningu á hverju ári næstu 20 árin. Ljóst má vera að stærstu útflutningsatvinnuvegir okkar í dag munu ekki verða drifkraftur þessarar aukningar. Það þarf fleiri hjól undir vagninn.

Mikil tækifæri til verðmætasköpunar felast í fiskeldi. Spurn eftir hreinu próteini fer vaxandi í heiminum og fiskeldi verður á næsta ári umfangsmeiri atvinnugrein á heimsvísu en veiðar úr villtum stofnum. Spurningin er því hvort Íslendingar ætli að vera þátttakendur í þessari verðmætasköpun. Svarið ætti að sjálfsögðu að vera jákvætt, að því gefnu að uppbygging atvinnugreinarinnar verði í sátt við bæði umhverfi og samfélag.

 

Hversu umfangsmikið er/verður sjókvíaeldi hér á landi?
Af umræðu mætti skilja að markmiðið sé að koma sjókvíaeldi fyrir í öllum fjörðum landsins. Það er fjarri sanni. Stærstur hluti strandlengjunnar er og mun verða lokaður fyrir fiskeldi. Miðað við nýjustu rannsóknir og mögulegan búnað verður sjókvíaeldi fyrst og síðast stundað á Vestfjörðum, hluta Austfjarða og mögulega í Eyjafirði. Suðurströnd og suðvesturströnd landsins hentar ekki til fiskeldis í sjó af náttúrulegum ástæðum og í Faxaflóa, Breiðafirði, Húnaflóa og Skagafirði er bannað að ala lax í sjókvíum. Á meðfylgjandi mynd má sjá merkt með gulu þar sem starfsemi eldis er útilokuð.

Mikilvægt er að uppbygging sjókvíaeldis hér á landi verði í hægum en öruggum skrefum. Í alþjóðlegum samanburði verður framleiðsla á Íslandi á næstu árum lítil. Árið 2019 gera áætlanir ráð fyrir að framleiðsla á eldislaxi hér á landi verði um 25.000 tonn. Til samanburðar er áætluð framleiðsla í Noregi 1,33 milljónir tonna, í Skotlandi 190.000 tonn, Kanada um 200.000 tonn, Chile um 900.000 tonn,  Færeyjum um 80 þúsund tonn og Bandaríkjunum um 285.000 tonn.

 

Hvernig eru áhrif fiskeldis á umhverfi takmörkuð?
Vart hefur orðið þeirrar umræðu að fóðurleifar og skítur safnist stjórnlaust upp undir sjókvíum. Þetta er ekki rétt. Hugað er vandlega að þessum áhrifum strax við skipulag eldis og þegar ítarlegt mat fer fram á umhverfisáhrifum þess. Ferlinu má í grófum dráttum lýsa með eftirgreindum hætti:

 1. Hafrannsóknastofnun vinnur burðarþolsmat, sem er skv lögummat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið“. Í þeirri vinnu felast m.a. mælingar á hafstraumi og rannsókn á öðrum umhverfisþáttum.
 2. Hafrannsóknastofnun vinnur einnig áhættumat til að takmarka hættu á mögulegri erfðablöndun eldislax við villta laxastofna.
 3. Því næst fer fram mat á umhverfisáhrifum tilgreinds fiskeldis. Ekki er heimilað eldi á svæðum nema varanleg áhrif séu talin ásættanleg. Á það bæði við um lífríki og uppsöfnun lífræns úrgangs. Ferli við mat á umhverfisáhrifum er með eftirgreindum hætti:
  1. Tillaga að matsáætlun unnin þar sem fram fara nauðsynlegar rannsóknir áður en leyfi til fiskeldis er gefið. Á þessu stigi er leitað umsagna hagsmunaaðila.
  2. Matsáætlun er samþykkt af Skipulagsstofnun.
  3. Nauðsynlegar rannsóknir framkvæmdar.
  4. Frummatsskýrsla liggur fyrir. Á þessu stigi er aftur leitað umsagna hagsmunaaðila.
  5. Skipulagsstofnun fær matið til meðferðar.
  6. Matsskýrsla samþykkt.
 4. Sé það niðurstaða matsskýrslu að umhverfisáhrif fyrirhugaðs eldis séu ásættanleg, ber eldisfyrirtækjum að leggja fram umsókn um rekstrarleyfi hjá Matvælastofnun (MAST). Slíku leyfi fylgja meðal annars kröfur um nauðsynlegan búnað til starfseminnar. Aukinheldur ber eldisfyrirtækjum að leggja fram umsókn um starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun. Slíku leyfi fylgja meðal annars kröfur um vöktunaráætlun um ástand hafsbotnsins við fyrirhugaðar sjókvíar. Áður en starfs- og rekstrarleyfi eru gefin út, gefst þeim sem það kjósa að setja fram andmæli eða athugasemdir, sem taka þarf rökstudda afstöðu til.
 5. Áður en starfsemi hefst eru sýni tekin af hafsbotni og sjó við fyrirhugaðar kvíar.

Þegar starfsemi er hafin eru svæði hvíld eftir slátrun fisks og er kveðið á um lengd hvíldartíma í starfs- og rekstrarleyfum. Er þetta gert til þess að lífrænn úrgangur eyðist áður en fiskur er settur á ný á hlutaðeigandi svæði. Hvíldartími svæðis getur verið misjafn, en hann ræðst af magni þess úrgangs sem safnast hefur fyrir. Áður en ný kynslóð fiska er alin á svæðinu eru sýni tekin til að kanna hvort svæðið uppfylli kröfur samkvæmt leyfum.

Myndavélar eru í öllum tilvikum notaðar til að fylgjast með hvernig fiskur tekur fóður. Ólíkt því sem áður var, fellur lítið fóður til botns undir kvíum. Allar vöktunarskýrslur eru aðgengilegar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

 

Hversu mikil hætta er á erfðablöndun eldisfisks við villtan lax?
Með áhættumati Hafrannsóknastofnunar er metið hvenær erfðablöndun eldislax við villta laxastofna verði það mikil að stofngerð villta stofnsins stafi hætta af. Í áhættumati ber að taka tillit til þeirra mótvægisaðgerða sem eldisfyrirtæki geta lagt til, en slíkum aðgerðum er ætlað að draga enn frekar úr þessari áhættu. Mótvægisaðgerðir má flokka í tvennt:

 • Fyrsta stigs mótvægisaðgerðir. Þær fara fram á eldisstað. Dæmi um slíkar mótvægisaðgerðir er notkun stærri seiða og smærri möskva til að draga úr seiðasleppingum, beiting ljósastýringar til að draga úr líkum á kynþroska, o.s.frv.
 • Annars stigs mótvægisaðgerðir. Þær fara fram í ánum. Er þá fylgst á reglubundinn hátt með komu eldisfiska, t.d. með notkun myndavéla, og brugðist við og eldisfiskar fjarlægðir á kostnað eldisaðila, annað hvort með vöktun og veiði eða með því að virkja gildrur við árnar. Annars stigs mótvægisaðgerðir hafa verið hluti af regluverkinu í Noregi síðan árið 2014 með góðum árangri.

Eldi á laxi í sjókvíum hér á landi er aðeins leyft á þeim svæðum þar sem mjög fáar eða engar laxveiðiár eru og er kveðið á um það í reglugerð. Samkvæmt fyrirliggjandi áhættumati Hafrannsóknastofnunar er hætta á mögulegri erfðablöndun staðbundin, þ.e. um er að ræða mögulega blöndun við villtan lax í tveimur ám í Ísafjarðardjúpi og einni á Austurlandi. Umsvif fiskeldis á þeim stöðum hafa því verið takmörkuð.

Í þessu samhengi má nefna að niðurstöður rannsókna MATÍS eru þær, að kynþroski í eldisfiski við slátrun er nánast ekki til staðar hér á landi. Þá hafa rannsóknir sýnt að geta eldislax til að fjölga sér er margfalt minni en hjá villtum laxastofnum og hefur hann mjög lélega samkeppnishæfni gagnvart villtum fiski, eins og fram kemur í áhættumatsskýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar frá árinu 2017. Hætta á erfðablöndun við villtan laxastofn er því óveruleg. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að eldislax hefur verið kynbættur um langt skeið, til þess meðal annars að auka vaxtarhraða og ná niður fóðurkostnaði. Hann hefur því nær engar forsendur til að þrífast utan kvía. Yfirgnæfandi líkur eru þar af leiðandi á því að sá eldislax sem sleppur lifi ekki af í villtri náttúrunni. Náttúruvalið lætur ekki að sér hæða.

 

Hvers vegna er fiskeldi ekki alfarið stundað á landi?
Fiskeldi á landi er mjög óverulegt á heimsvísu. Spár gera ráð fyrir að það verði einungis um 1,5% af heimsframleiðslu eftir 4 ár. Ástæður þessa eru margþættar, en kostnaður við framleiðslu vegur þar að líkindum þyngst. Þannig er framleiðslukostnaður í landeldi áætlaður um 40-50% hærri en í sjóeldi, auk þess sem fjárfestingakostnaður er um tífalt hærri. Því til viðbótar krefst landeldi aukinnar landnotkunar og bæði orku- og vatnsnotkun er meiri en í sjóeldi. Landeldi er aukinheldur ekki án umhverfisáhrifa, því seyra safnast frá starfseminni sem þarf að koma í lóg eða endurvinnslu.

Vegna hærri framleiðslukostnaðar fer landeldi fram í flestum tilvikum nærri markaðssvæðum þannig að spara megi flutningskostnað. Ísland er eyja í miðju Atlantshafi og kostnaður íslenskra fyrirtækja við flutning á helstu markaðssvæði er töluverður – og í öllum tilvikum hærri en helstu keppinauta okkar. Af þeim sökum verður landeldi því enn óhagkvæmara en ella. Talið er að árið 2022 geti hlutfall landeldis á laxi í heiminum numið um 1,5% heimsframleiðslunnar

 

Hvers vegna er ekki notaður ófrjór lax í meiri mæli?

Blessunarlega fleygir þekkingu hratt fram í fiskeldi. Ræktun á ófrjóum laxi getur sannanlega falið í sér tækifæri. Á þessu stigi er hins vegar um þróunarstarfsemi að ræða og lítil reynsla er komin á fýsileika slíkrar ræktunar. Í því felst mikil rekstrarleg áhætta. Íslensk fyrirtæki, sem eru rétt að hefja starfsemi í fiskeldi, hafa því litlar rekstrarlegar forsendur til að bera slíka áhættu. Þróun á þessum möguleika fer eftir sem áður fram hér á landi og má þar nefna tilraunir Stofnfisks (ófrjó seiði), Háskólans á Hólum, Hafrannsóknastofnunar og einstakra fiskeldisfyrirtækja. Reynsla erlendis af notkun ófrjós lax til eldis hefur sýnt að slíkur fiskur er viðkvæmari fyrir sjúkdómum og umhverfisaðstæðum, vöxtur hans er minni og tíðni vansköpunar er meiri. Til að nýta burðarþol og rekstrarleyfi skilgreindra eldissvæða verður þörf á að ala ófrjóan lax. Eldisfyrirtæki munu reyna tilraunaeldi á ófrjóum fiski til að nýta þau leyfi sem fyrir eru og nýtast ekki fyrir eldi á frjóum fiski. Sem dæmi um þetta mun Fiskeldi Austfjarða setja út 100.000 ófrjó seiði í eina kví í vor.

 

Hvers vegna er ekki notast við svokallaðar lokaðar sjókvíar?
Þróun á svo kölluðum lokuðum sjókvíum er enn á tilraunastigi. Þær verða að vera í djúpum sjó og þola ekki mikla ölduhæð. Eldisferlið verður aukinheldur nokkuð flóknara. Lokað kerfi krefst meðal annars, umfram hefðbundnar sjókvíar, dælingar á sjó, íblöndun súrefnis og upptöku á lífrænum úrgangi sem fellur til. Framleiðslukostnaður í þessum tilvikum hefur verið metinn um 23% hærri en við eldi í hefðbundnum sjókvíum.

Miklar framfarir hafa orðið á kvíabúnaði á umliðnum árum. Stöðugt eru að koma fram nýjar og athyglisverðar lausnir. Fyrirtæki hér á landi fylgjast að sjálfsögðu grannt með þróuninni og munu vafalaust, ef rekstrarlegar forsendur standa til þess, tileinka sér nýja tækni þegar henni vindur fram.

 

Er laxalús algeng hér á landi og hvernig er brugðist við henni?
Áhyggjur af laxalús eru fyllilega réttmætar. Um er að ræða alvarlegt og kostnaðarsamt vandamál ef upp kemur í starfsemi fiskeldis. Á umliðnum árum hafa hins vegar orðið miklar framfarir í rannsóknum tengdum laxalús. Nýjar aðferðir til að losna við lús, ef upp kemur, eru því að ryðja sér til rúms. Má þar meðal annars nefna „mekanískar“ aðferðir líkt og að dæla fiski um ferskvatn þannig að hann losi sig við lúsina í ferlinu og notkun svokallaðra lúsapilsa (e. skirts) utan um kvíar. Nýjar aðferðir til að halda lús í skefjum eru í þróun. Hér á landi hefur aðeins í tveimur tilvikum þurft að takast á við lús með lyfjagjöf. Strangt eftirlit er þá viðhaft og skilyrði eru þröng. Þannig er notkun lyfja meðal annars óheimil nærri skeldýrum, líkt og rækjumiðum. Þá er þess að geta að í íslensku fiskeldi eru sýklalyf ekki notuð og hefur svo verið um langt árabil.

 

Er nauðsynlegt að byggja fiskeldi á erlendu fjármagni; fer ekki arðurinn úr landi?
Erlendir aðilar geta séð tækifæri sem innlendum eru hulin, bætt það sem fyrir er með nýrri þekkingu og tækni og skapað möguleika til vaxtar. Það er fengur fyrir íslenskt efnahagslíf ef norsk eldisfyrirtæki sjá tækifæri til fjárfestinga hér á landi. Fjárfestingunni fylgir líka þekking sem hefur skipt miklu máli við uppbyggingu atvinnugreinar sem á sér ekki langa sögu hér á landi, á forsendum þeirrar þekkingar og tækni sem beitt er við fiskeldi nú á tímum.

Fiskeldi er fjármagnsfrek atvinnustarfsemi. Þær miklu kröfur sem greinin verður að standast kosta verulega fjármuni og greinin verður ekki fjármögnuð nema með töluverðu eigin fé. Matsáætlanirnar einar og sér kosta tugi milljóna króna hver og ein. Frá því öll leyfi stjórnvalda liggja fyrir og þar til fyrstu tekjur falla til, geta liðið allt að sjö ár. Það er því bæði jákvætt og eðlilegt að erlent fjármagn og yfirgripsmikil þekking erlendis frá hafi komið inn í þennan atvinnurekstur hér á landi. Í því felst viðurkenning þeirra sem best þekkja til í þessum atvinnurekstri í heiminum.

Erlend fjárfesting í uppbyggingu fiskeldis á landsbyggðinni er kærkomin innspýting fyrir íslenskan efnahag. Flest eru fyrirtækin enn í uppbyggingarfasa og mun þróun á næstu árum skipta miklu fyrir samfélög sem sjá nú fram á blómlegra atvinnulíf.

 

Af hverju er laxeldi góð byggðastefna?
Uppbygging fiskeldis á Vestfjörðum og Austfjörðum hefur nú þegar skapað nokkur hundruð störf, jafnt beinna sem óbeinna. Árangur þessa hefur verið sá að fólki hefur fjölgað að nýju á svæðum sem hafa búið við langvarandi og stöðuga fólksfækkun. Um er að ræða fjölbreytt störf, sem henta jafnt konum sem körlum og kalla á sérhæfingu og menntun. Reynslan sýnir að þessi störf eru eftirsótt.

Byggðastofnun gaf út skýrslu fyrir nokkru um hagvöxt landshluta frá árinu 2008 til ársins 2016. Þar kemur fram að meðalaldur íbúa í Ísafjarðarkaupstað hefur hækkað á tímabilinu um 3 ár og er svipaða sögu að segja um aðra staði á norðanverðum Vestfjörðum. Öðru máli gegnir um sunnanverða Vestfirði en í skýrslunni segir orðrétt: „Meðalaldur er mun lægri á sunnanverðum Vestfjörðum, þar sem viðsnúningur hefur orðið, en þar fækkaði ungu fólki stöðugt fyrir nokkrum árum. Uppbygging í fiskeldi á stærstan þátt í breytingunni.“

Frá árinu 2008 til ársins 2017 jukust atvinnutekjur á Vestfjörðum um 7,3% að raunvirði, talsvert minna en að jafnaði í öðrum landshlutum. Langstærstan hluta aukningarinnar, eða um 65%, má rekja til fiskeldis. Ef það hefði ekki komið til, hefðu atvinnutekjurnar á Vestfjörðum einungis aukist um tæp 2,6%. Eru þá ótalin umtalsverð áhrif vegna afleiddra starfa. Fiskeldi er því  öflug byggðastefna, sem um leið skapar miklar tekjur fyrir þjóðarbúið.

Með auknum umsvifum vaxa tekjur sveitarfélaganna á viðkomandi svæðum. Þar með aukast möguleikar á að veita aukna og fjölþætta þjónustu, sem gerir þau um leið eftirsóknarverðari til búsetu, eins og raunin hefur orðið.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px