Fallandi fram­legð – skert sam­keppn­is­hæfni

Á undanförnum misserum hefur ýmislegt verið rætt og ritað um lakari horfur í vinnslu á sjávarafurðum. Þegar rýnt er í tölur um afkomu fiskvinnslufyrirtækja sést að rekstrarafkoman, í hlutfalli við tekjur, hefur versnað stórum og ekki verið lakari í tæpan áratug.

Staðan er sérstök í ljósi þess að atvinnugreinin hefur fjárfest fyrir tugi milljarða nýjum tækjum og búnaði. En hvað veldur svo verulega versnandi afkomu?

Verksmiðja og virðisauki
Þegar uppbygging hinnar dæmigerðu fiskvinnslu er skoðuð, verða nokkur megineinkenni ljós. Fiskvinnsla er í raun ekki frábrugðin hvers kyns verksmiðjustarfsemi; reynt er að búa til virðisauka úr ákveðnu hráefni. Langstærsti hluti aðfangakostnaðar í fiskvinnslu fellur til vegna hráefniskaupa.

Hlutfall kostnaðar vegna aðfanga er nokkuð áþekkt frá einum tíma til annars. Hráefni sem hlutfall af heildar aðfangakostnaði var alla jafna á bilinu 70-80% á tímabilinu 1997-2017. Aðrir einstakir kostnaðarliðir vega ekki þungt. Sumum hættir til að álykta á þá leið, að þróun hráefniskostnaðar hafi úrslitaáhrif á rekstrarafkomu og hagkvæmni í vinnslu. Þetta kann að vera rétt fyrir einstaka fyrirtæki og fer eftir því hversu greiðan aðgang það hefur að hráefni. Hins vegar er þetta ekki alls kostar rétt fyrir atvinnugreinina í heild, enda fylgjast hráefniskostnaður og aflaverðmæti að og þar af leiðandi einnig tekjur. Til að glöggva sig á þessu má hér að neðan sjá þróun þessara stærða frá árinu 1997.

Færri starfsmenn, hærri kostnaður
Af fyrrgreindu má vera ljóst að það er ekki breyting á hráefniskostnaði sem dregið hefur úr rekstrarhagkvæmni og framlegð á undanförnum árum. Það er í raun hægt að álykta að það sé ekkert í aðfangakostnaðinum sem hefur drifið þetta áfram, enda var vinnsluvirði ( sem eru tekjur að frádregnum aðfangakostnaði), jafn hátt hlutfall af tekjum árið 2017 og það var árið 2008. Til þess að meta rekstrarafkomu þarf að draga laun og tengd gjöld, ásamt sköttum á framleiðslu (sem eru óverulegur hluti af heildinni), frá vinnsluvirði. Við nánari skoðun virðist sem þar liggi hundurinn grafinn.

Frá árinu 1997 hefur launakostnaður fiskvinnslufyrirtækja á föstu verðlagi hækkað, þrátt fyrir rúmlega 64% fækkun starfsmanna í aðal- eða aukastarfi við vinnslu sjávarafurða. Þróunin hefur verið sérstaklega áberandi frá árinu 2008. Á tímabilinu 2008-2017 dróst framlegð í hlutfalli við tekjur í fiskvinnslu saman um tæplega 40%, þrátt fyrir því sem næst óbreytt hlutfall vinnsluvirðis af tekjum. Rekja má þá þróun nær eingöngu til hækkana á launakostnaði og íþyngjandi gjöldum sem tengjast launum.

Tryggjum sjálfbærni
Sú þróun í fiskvinnslu sem hér hefur verið lýst er uggvænleg. Árið 2017 sátu eftir tæpar 11 krónur af hverjum 100 krónum sem fiskvinnslan fékk í tekjur, áður en tekið var tillit til fjármagnskostnaðar og tekjuskatts. Það sem meira er: Tölur þær sem hafa verið tíundaðar í þessari umfjöllun lýsa stöðunni fyrir atvinnugreinina í heild sinni. Sumar fiskvinnslur munu því standa verr en aðrar. Í mörgum tilvikum mun það raunar standa tæpt hvort rekstrargrundvöllur sé yfir höfuð til staðar til lengri tíma. Sú staða gæti orðið afdrifarík fyrir byggðarlög sem reiða sig á starfsemi fiskvinnslu.

Fiskvinnslur hafa ekki stjórn á mörgum kostnaðarliðum, svo sem hráefniskostnaði, olíukostnaði og flutningskostnaði. Hins vegar er hægt að hafa áhrif á þróun launakostnaðar. Þróun undanfarinna ára er einfaldlega ekki sjálfbær og það er einmitt launakostnaður sem hefur þrengt að stöðu fiskvinnslu hvað mest. Það ætti að vera öllum áhyggjuefni ef staðan er sú að óábyrg skipan kjaramála stefni rekstrargrundvelli heillar atvinnugreinar í hættu. Við Íslendingar getum talið okkur fremst á heimsvísu þegar kemur að gæðum og fullvinnslu sjávarafurða. Sú staða hefur tryggt góð og örugg störf um land allt, auk þess að leggja til hagsældar þjóðarbúsins með ríflegum útflutningstekjum. Augljóst er að sú staða mun tapast ef fram heldur sem horfir.

Höf: Friðrik Þór Gunnarsson, hagfræðingur

 

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px