End­ur­vi­gt­un er lyk­il­þátt­ur í fisk­veið­i­stjórn­un

Endurvigtun afla er órjúfanlegur hluti þeirrar keðju að skrá rétt hvaða afli berst að landi

Helstu atriði:

  • Núverandi fyrirkomulag endurvigtunar hefur reynst vel og stuðlað að meiri gæðum og auknu verðmæti sjávararfurða
  • Endurvigtun afla er órjúfanlegur hluti þeirrar keðju að skrá rétt hvaða afli berst að landi
  • Fyrirliggjandi gögn og úttektir staðfesta að framkvæmd og framfylgni við ákvæði laga um endurvigtun er almennt til fyrirmyndar
  • Gögn gefa ekki vísbendingar um að kerfisbundið sé verið að upplýsa ranglega um hærra íshlutfall þannig að afli sé skráður minni en hann í raun er
  • Vísbendingar eru um að fáir aðilar standi að baki meginhluta frávika sem finnast
  • Engin rök standa til þess að ráðast í grundvallarbreytingar á núgildandi framkvæmd
  • Stofnvísitala þorsks hefur ekki verið hærri frá því að mælingar hófust árið 1996

 

Fyrirtæki í sjávarútvegi eiga allt undir því að umgengni við sjávarauðlindina sé forsvaranleg og ábyrg. Í því felst meðal annars að rétt sé greint frá því hversu mikið er dregið úr sjó. Rétt skráning afla er ein forsenda þess að fiskveiðistjórnunarkerfið virki eins og því er ætlað og veiðarnar séu sjálfbærar. Sé litið til nýjustu frétta af ástandi þorskstofnsins við Ísland, þá hefur endurreisn hans gengið vel. Reyndar svo vel að stofnvísitala þorsks hefur ekki verið hærri frá því að mælingar hófust árið 1996.

Endurvigtun afla er órjúfanlegur hluti þeirrar keðju að skrá rétt hvaða afli berst að landi. Útgerðir ráða því hversu mikill ís er notaður þegar skip er að veiðum. Það veltur á ýmsu; fisktegund, fiskimiðum, árstíma, tegund skips, lengd úthalds, kröfum kaupanda, hitastigi í lest og körum og hversu lengi aflinn er geymdur eftir að honum er landað og áður en hann er unninn. Það eru því fjölmargir þættir sem skýrt geta muninn á því hversu mikinn ís menn vilja nota. Ís gegnir veigamiklu og margþættu hlutverki í að viðhalda gæðum fisks og tryggja þar með sem hæst verð fyrir afurðina. Hann nýtist bæði sem kælimiðill og til ræstingar, því ís heldur fiski aðskildum fyrir rásir fyrir ísbræðsluvatn, sem getur verið mengað blóði og slori og valdið skemmdum.

Gildandi lög um endurvigtun

Núverandi fyrirkomulag endurvigtunar hefur reynst vel og stuðlað að meiri gæðum og auknu verðmæti sjávararfurða. Eftir að í land er komið er fiskiker vigtað á hafnarvog, ekið er með það inn í vinnslu, ísinn tekinn frá og aflinn vigtaður. Niðurstaða úr þeirri vigtun dregst frá aflamarki viðkomandi skips. Síðari vigtun er kölluð endurvigtun og hún tryggir nákvæma vigtun og flokkun afla.

Leyfi til endurvigtunar er gefið út af Fiskistofu. Það eru löggiltir vigtarmenn sem sjá um hana og að færa til bókar rétt magn afla. Fiskistofa hefur eftirlit með því að vigtarbúnaður uppfylli kröfur og skilyrði um vigtun og skráningu sjávarafla. Sérstakar hæfniskröfur eru gerðar til löggiltra vigtarmanna og Fiskistofa hefur eftirlit með því að ákvæðum laga sé fylgt þegar kemur að endurvigtun.

Árið 2015 varð lagt fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar og ýmsum öðrum lögum. Frumvarpið fól í sér umfangsmiklar og verulegar breytingar á kerfi vigtunar. SFS gerðu athugasemdir við grundvallarþætti í nefndu frumvarpi og lögðu til að vigtarmálefni yrðu tekin til endurskoðunar í heild í samvinnu við atvinnugreinina með það að markmiði að tryggja rétta vigtun, gæði og hámörkun verðmæta sjávarafurða. Samtökin hafa ávallt lagt áherslu á að allir eigi að spila eftir sömu leikreglum og brot eigi ekki að líðast. Taka beri á undantekningartilfellum af fagmennsku og festu en ekki að umbylta kerfinu á kostnað atvinnugreinarinnar í heild. Fyrrgreint frumvarp varð ekki að lögum á þeim tíma.

Sumarið 2017 voru gerðar lagabreytingar er vörðuðu framkvæmd, eftirlit og viðurlög vegna brota gegn ákvæðum laga og reglugerða um endurvigtun. Eftirlit var hert og viðurlög þyngd. Fiskistofu hefur nú heimild til að fylgjast með allri vigtun vigtunarleyfishafa í allt að sex vikur ef hann yrði uppvís að verulegu fráviki á íshlutfalli í afla skips miðað við meðaltal í fyrri löndunum. Vigtunarleyfishafi ber allan kostnað af eftirliti þennan tíma. Sé um ítrekuð, veruleg frávik að ræða, skal Fiskistofa afturkalla vigtunarleyfi hjá viðkomandi í allt að eitt ár.

Kerfisbundin lögbrot ekki til staðar

Þegar skoðuð eru gögn sem Fiskistofa birtir á heimasíðu sinni, um hlutfall íss í afla við endurvigtun þegar eftirlitsmaður er á staðnum, þ.e. við svokallaða yfirstöðu eftirlitsmanns, og samanburður við vegið meðalíshlutfall úr öllum vigtunum frá tilteknu skipi hjá vigtunarleyfishafa, kemur í ljós að íshlutfall við yfirstöðu er ýmist hærra eða lægra en meðalíshlutfallið. Gögnin gefa því ekki vísbendingar um að kerfisbundið sé verið að upplýsa ranglega um hærra íshlutfall þannig að afli sé skráður minni en hann í raun er.

Þetta má sjá á meðfylgjandi mynd. Gögnin eru úr eftirliti Fiskistofu árið 2017.

Mælingar sýna að það getur verið hvort tveggja, hærra eða lægra íshlutfall að viðstöddum eftirlitsmanni í samanburði við vegið meðalíshlutfall í afla skipsins sem landað var hjá sama vigtunarleyfishafa á tímabilinu. Breytileikinn var mikill og ef reiknað er meðaltal þá var íshlutfallið 0,74 prósentustigum lægra þegar eftirlitsmaður var á staðnum en það var að jafnaði. Ef að skoðað er vegið meðaltal þá var það 1,12 prósentustigum lægra. Ástæður breytilegs íshlutfalls geta verið margvíslegar eins og bent hefur verið á og koma vel í ljós ef skoðaðar eru einstakar landanir skipa.

Fyrrgreindar mælingar Fiskistofu eru í samræmi við niðurstöður rannsóknar frá haustinu árið 2015, sem prófessorarnir Helgi Tómasson og Daði Már Kristófersson, unnu um endurvigtun fyrir Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Framkvæmdar voru ýmsar tölfræðirannsóknir á gögnum frá Fiskistofu um endurvigtun sem náðu yfir árin 2012, 2013 og 2014. Samkvæmt þeim var meðaltal íshlutfalls í endurvigtun 15,7%, en 14,2% við eftirlit, það er 1,5% mismunur. Þeir benda á að í gögnunum sé samræmi milli þess þegar eftirlit er á staðnum og endurvigtunar án eftirlits í meirihluta tilfella. Þetta bendir til þess að fáir aðilar standi að baki meginhluta frávikanna.

Þessu til staðfestingar má nefna, að þegar þrjú af þeim fyrirtækjum sem voru ítrekað með verulegt frávik í mælingum eru tekin út úr heildinni, þá er meðaltalsfrávikið hverfandi (undir einu prósenti), hvort sem miðað er við magn eða fjölda mælinga.

Nánari útlistun á stöðunni á hverju tímabili fyrir sig er sem hér segir:

Í janúar til og með mars voru gerðar 28 mælingar hjá 22 fyrirtækjum úr afla samtals 26 skipa. Þarna sést að íshlutfall er frá því að vera 5 prósentustigum hærra við eftirlit en það var í aflanum að jafnaði á tímabilinu, niður í að vera rúmum 12 prósentustigum lægra. Hver fisktegund er mæld sérstaklega þar sem mismunandi getur verið, eftir tegundum, hversu mikið ísað er. Vegið meðaltalsfrávik tímabilsins var 2,38% lægri ísprósenta en að jafnaði við endurvigtun.

Næsta birting Fiskistofu náði yfir tímabilið apríl til maí. Þá voru gerðar 25 mælingar hjá 20 aðilum. Þrettán mælingar sýndu íshlutfall sem var hærra en vegið meðaltal. Íshlutfall var frá því að vera 5 prósentustigum lægra upp í það að vera tæpum 5 prósentustigum hærra í einstökum mælingum.

Fjórtán mælingar voru gerðar yfir sumarmánuðina hjá samtals 9 aðilum. Það vekur athygli að töluvert mörg tilfelli voru þar sem íshlutfall er lægra en hið vegna meðaltal.

Næsta tímabil sem Fiskistofa birti nær frá september til októberloka. Þar má sjá 29 mælingar hjá 22 aðilum. Einungis 12 mælingar sýna lægra íshlutfall þegar eftirlit er á staðnum miðað við meðaltal og munurinn er mestur rúm 3 prósentustig en í 8 mælingum er munurinn undir 2 prósentustigum. Í 17 tilvikum er hlutfall íss við yfirstöðu hærra en meðaltal.

Síðasta tímabilið sem Fiskistofa nær yfir síðustu tvo mánuði ársins 2017. Þarna eru 24 mælingar hjá 18 fyrirtækjum. Þarna má sjá að 17 mælingar sýna lægra íshlutfall en af þeim er vel yfir helmingur undir 3 prósentustigum.

Það sem þessar myndir segja okkur er að breytileiki er á íshlutfalli og slíkt er eðlilegt. Þær sýna einnig að allt tal um kerfisbundið svindl á vigtun er rangt. Frávik eiga sér stað í báðar áttir og það er ekki fyrr en þegar verulega munar á íshlutfalli við eftirlit og meðaltali landana, þ.e.a.s. verulega minna af ís mælist við eftirlit sem Fiskistofa bregst við með ákvörðun viðurlaga. Svipting á leyfi til endurvigtunar á sér stað við ítrekuð slík frávik.

Með þeim breytingum sem gerðar voru á framkvæmd, eftirliti og viðurlögum gagnvart brotum við endurvigtun síðastliðið sumar telur SFS að réttar áherslur hafi verið settar við breytingar á reglum um endurvigtun. Þetta sést þegar myndirnar eru skoðaðar. Frávik þar sem hlutfall íss er lægra við eftirlit eru færri á síðustu mynd en þeim fyrri.  Þá er ekki síður mikilvægt að niðurstöður vigtunar alls landaðs afla eru birtar opinberlega á heimasíðu Fiskistofu, þannig að fullt gagnsæi er til staðar. Komi fram misræmi geta sjómenn eða aðrir hagsmunaaðilar því vakið máls á því við Fiskistofu.

Framkvæmd almennt til fyrirmyndar

Mikilvægt er að huga að staðreyndum, áþekkum þeim sem hér hafa verið reifaðar, þegar fjallað er um málefni endurvigtunar. Með þeirri framkvæmd sem nú er kveðið á um í lögum hefur markmiðinu um aukin gæði og aukið virði afla verið náð. Ómögulegt er að fá nákvæmlega sama hlutfall íss í öllum tilvikum og það eru margir þættir sem ráða þörfinni fyrir magni íss, líkt og hér var vikið að. Af þeim sökum verða ávallt einhverjar sveiflur. Hvað sem því hins vegar líður er ljóst að fyrirliggjandi gögn og úttektir staðfesta að framkvæmdin og framfylgni við ákvæði laganna er almennt til fyrirmyndar. Virkt eftirlit og tilhlýðileg viðurlög eru síðan nauðsynleg til að taka á háttsemi sem ekki er í samræmi við gildandi lög. Engin rök standa því til þess að ráðast í grundvallarbreytingar á núgildandi framkvæmd.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px