Breyt­ing­ar með nýrri afla­reglu við stjórn loðnu­veiða

Ný aflaregla loðnu kallar á auknar rannsóknir og vöktun

Ár er nú liðið síðan tekin var upp ný aflaregla við stjórn loðnuveiða og nemur reynslan af nýrri aflareglu því einni loðnuvertíð. Strax er þó orðið ljóst að með tilkomu nýrrar aflareglu hefur orðið til nýtt og breytt vinnuumhverfi. Af þeim sökum er nauðsynlegt að hugsa loðnurannsóknir og vöktun loðnugangna upp á nýtt.

Hvað breyttist?

Gamla aflareglan byggði á svokölluðu punktmati á stofnstærð og miðaði að því að skilja eftir 400 þúsund tonn af loðnu til hrygningar. Ekki var tekið tillit til óvissu í mælingum. Nýja aflareglan setur mörkin við 150 þúsund tonn til að forðast að það fari að draga úr nýliðun vegna lítils hrygningarstofns. Miðað er við að stofninn sé yfir þessum mörkum með 95% líkum á hrygningartíma. Nýja aflareglan tekur einnig með í reikninginn loðnuát þorsks, ýsu og ufsa á raunhæfari hátt en sú gamla.

Nýja aflareglan takmarkar þannig áhættu og tekur tillit til óvissu, eins og krafist er og krefjast ber, ekki síst í ljósi mikilvægis loðnunnar sem fæðu fyrir aðrar tegundir nytjafiska og vegur þorskurinn þar þyngst. Með slíkri nálgun er tryggt með yfirgnæfandi líkum að ekki sé gengið um of á hrygningarfiskinn. Nýja aflareglan telst varfærnari en sú gamla.

Breytt vinnuumhverfi

Vegna þess hvernig matið á óvissu í mælingum fer fram krefst nýja aflareglan vel heppnaðra samfelldra mælinga sem gefa heildaryfirsýn til að hægt sé að leggja tölulegt mat á óvissuna. Slíkar mælingar eru erfiðar í framkvæmd og krefjast mikils skipatíma, enda veður oft válynd að vetri og loðnan dyntótt.

Ekki er hægt að ná saman mælingu með „bútasaumi“ yfir lengri tíma eins og áður. Sú nálgun að skrapa saman í 400 þúsund tonn og meira yfir lengri tíma gildir ekki með sama hætti og áður, enda virkar óvissumatið ekki við slíkar aðstæður og aðfarir. Enn má þó útvíkka mælingu í undantekningartilvikum þegar ný og skýrt afmörkuð ganga kemur inn á hafsvæðið, að því gefnu að atburðarásin á miðunum hafi verið vel vöktuð í rauntíma. Þetta samhengi kallar á mun umfangsmeiri og betri vöktun.

Óvissan kemur til frádráttar afla

Í vissum skilningi má segja að óvissa í mælingu dragist frá leyfilegum hámarksafla samkvæmt nýju aflareglunni. Þetta gilti ekki í fyrra fyrirkomulagi. Því meiri sem óvissan er, því minni verður aflinn út frá jafnhárri mælingu. Tiltölulega há mæling með mikilli óvissu getur leitt til tiltölulega lítils leyfilegs loðnuafla. Þegar svo háttar til má reyna að minnka óvissuna með endurtekinni mælingu. Þetta er enn ein ástæða þess að ný aflaregla kallar á auknar rannsóknir og vöktun.

Niðurlag

Góð vitneskja um magn og útbreiðslu hrygningarloðnu í rauntíma er forsenda þess að nýja aflareglan geti virkað sem skyldi. Án slíkrar vitneskju myndast gloppa gagnvart aflaákvörðunum og veiðum. Á þetta reynir mjög þegar hrygningarstofn loðnunnar er í minna lagi, eins og hann er talinn hafa verið undanfarin ár, og útbreiðslusvæðið er stærra og óvissan mikil um göngumynstur og tímasetningar. Ef markmiðið er að skapa tekjur í þjóðarbúið með loðnuveiðum án óþarfa áhættu þá verður ekki undan því vikist að auka verulega umfang loðnumælinga, undirbúningsrannsókna og vöktunar hrygningarloðnunnar.

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px