Arð­greiðsl­ur sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækja

Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, skrifar:

Ef Ísland ætlar að halda samkeppnishæfni sinni í sjávarútvegi á erlendum mörkuðum er mikilvægt að fyrirtæki í sjávarútvegi séu vel fjármögnuð, fjárfesti mikið og skili góðri afkomu. Ef ekki verður hægt að gera samkeppnishæfar arðsemiskröfur á sjávarútvegsfyrirtæki leita fjárfestingar og fjármagn í aðra valkosti og samkeppnishæfni greinarinnar minnkar.

Af umræðunni að undanförnu að dæma má ætla að einhverjum þyki það tortryggilegt að sjávarútvegsfyrirtæki greiði út arð til hluthafa sinna. Í umræðunni er fjárhæðum arðgreiðslna nokkurra stórra sjávarútvegsfyrirtækja slegið fram og svo dregnar af þeim sterkar ályktanir um atvinnugreinina í heild án nokkurrar frekari greiningar á samhengi hlutanna.

Forðumst fullyrðingar
Það er varasamt að fullyrða eitthvað um öll sjávarútvegsfyrirtæki út frá afkomu nokkurra. Sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi eru mörg hundruð talsins og eru mjög mismunandi að stærð og gerð víðsvegar um land allt. Fyrirtæki í sjávarútvegi þurfa mikið fjármagn til starfseminnar, nauðsynleg fjárbinding í fastafjármunum í sjávarútvegi er sérstaklega mikil í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Hjá sumum fyrirtækjum gengur vel á meðan önnur berjast í bökkum og á því eru margar skýringar. Maður myndi til dæmis fara varlega í að fullyrða að auðvelt sé að reka smásöluverslun á Íslandi með góðum árangri þótt Hagar hf. hafi verið reknir með myndarlegum hagnaði undanfarin ár og skilað mjög hárri ávöxtun eigin fjár.

Þegar einstaklingar eða félög leitast við að ávaxta fjármuni koma til greina ýmsir valkostir. Sumir freista þess að fara út í eigin atvinnurekstur á meðan aðrir setja fjármuni í eitthvað sem þeir hafa trú á, án þess að fást endilega sjálfir við fyrirtækja­rekstur. Þannig er hægt að leggja fjármuni inn á banka og fá fyrir það vaxtatekjur eða kaupa skuldabréf, verðtryggð eða óverðtryggð, sem gefa vaxtatekjur. Þá er einnig hægt að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum.

Á að gera lægri ávöxtunarkröfur?
Af fjárfestingu í hlutabréfum fást ekki vaxtatekjur, líkt og af bankainnstæðum og skuldabréfum, heldur arðgreiðslur. Arðgreiðslur geta hlutafjáreigendur þó aðeins fengið ef fyrirtækin sem hluthafarnir eiga hluti í eru rekin með hagnaði. Í einföldu máli takmarkast mögulegt umfang arðgreiðslna við uppsafnaðan hagnað fyrirtækjanna.

Í Kauphöll Íslands eru skráð fjölmörg fyrirtæki sem hægt er að kaupa hluti í. Fyrirtækin eru mismunandi að stærð og starfa á mismunandi sviðum. Má þar nefna: Marel hf. (tæknifyrirtæki), N1 hf. (olíufélag), Össur hf. (stoðtækjaframleiðandi), Haga hf. (smásöluverslun), Nýherja hf. (tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki), Icelandair Group hf. (flugfélag) og HB Granda hf. (sjávarútvegsfyrirtæki).

Fyrirtækin sem skráð eru í Kauphöll Íslands eiga það öll sameiginlegt að keppast við að skila góðri afkomu til að hluthafarnir fái arð af fjárfestingu sinni. Sum fyrirtækjanna hafa sett sér arðgreiðslustefnu þar sem gjarnan er miðað við að arðgreiðslur nemi ákveðnu hlutfalli af hagnaði eftir skatta og ákveðið hlutfall hagnaðar sé notað til uppbyggingar og vaxtar.

Af hverju ætti sá sem setur fjármuni í hlutabréf í stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, HB Granda hf., að gera lægri ávöxtunarkröfu til fjármunanna en hann myndi gera til fjárfestinga í hlutabréfum annarra fyrirtækja í Kauphöllinni – sem hann metur af svipaðri áhættu?

Greinin birtist upphaflega í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti, 26. nóvember 2014. 

Upp úr auðlindaskotgröfum

Opinn fundur um gagnsæi í sjávarútvegi

Sjá fleiri Greinar 3px